Áherslur og stefnumál

Grunnstefna Pírata er mér mjög hugleikin og ég mun leitast við að fylgja henni eftir bestu getu í öllum mínum störfum fyrir Pírata. Eins aðhyllist ég öll helstu stefnumál Pírata, eins og að vinna að nýrri stjórnarskrá og þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Vegna menntunar minnar á sviði mannréttindalaga og alþjóðlegs refsiréttar hef ég þó sérstakan áhuga á ýmsum málefnum tengdum þeim sviðum enda tel hæfileika mína nýtast best á þeim sviðum sem ég hef menntað mig sérstaklega til þess að sinna.

Mannréttindi, betri stjórnsýsla og aukin áhersla Íslands á frið og réttlæti á alþjóðavettvangi verða því mín helstu áhersluatriði komist ég á þing fyrir Pírata.

Aukin mannréttindavernd og -vitund

Staða mannréttinda á Íslandi er ekki nógu góð og mig langar að berjast fyrir aukinni áherslu löggjafans og framkvæmdarvaldsins á mannréttindavernd í víðum skilningi. Ég vil beita mér fyrir því að löggjafin geri mannréttindavernd að fyrsta viðmiði þegar lög eru sett. Mannréttindavernd borgaranna á ekki að vera aukaatriði sem löggjafinn hugar að eftir að frumvarp er orðið til heldur ætti fyrsta skrefið í hverri lagasetningu að vera að tryggja mannréttindi þeirra sem lögin beinast gegn.

Endurskoða þarf fjöldan allan af úreltum lögum sem vernda ekki réttindi borgaranna sem skyldi. Sem dæmi má nefna að tjáningarfrelsinu eru settar óhóflegar skorður með úreltum meiðyrðalögum og málflutningi óábyrgra stjórnmálamanna sem hóta gagnrýnum fjölmiðlum niðurskurði. Dómstólar standa ekki vörð um friðhelgi einkalífs með fullnægjandi hætti og gefa lögreglu allt of rúmar heimildir til að hlera símtöl og leita í húsakynnum og vösum borgaranna. Réttur okkar allra til bestu mögulegu heilsu er veginn og léttvægur fundinn af núverandi ríkisstjórn, sem sér ekkert athugavert við að horfa upp á heilbrigðiskerfið okkar hrynja.

Til þess að efla megi mannréttindavernd og -vitund á Íslandi tel ég mikilvægt að:

 • Semja þarf aðgerðaráætlun mannréttindamála  með skýrum og metnaðarfullum markmiðum til tíu ára í senn.
 • Dómar Mannréttindasáttmála Evrópu ættu að hljóta lagalega stöðu lögskýringagagna. Eins og staðan er í dag álíta íslenskir dómstólar sig ekki skylduga til þess að líta til dómasögu þessa virta dómstóls í málum er varða réttindi sem vernduð eru af mannréttindasáttmála Evrópu. Af því leiðir að íslenskir dómstólar gerast endurtekið uppvísir að broti á sáttmálanum í málum höfðuðu gegn Íslandi.
 • Setja þarf á fót sjálfstæða mannréttindastofnun sem sinnir bæði fræðslu- og aðhaldshlutverki gagnvart mannréttindavernd á Íslandi. Frumvarp Ólafar Nordal núverandi innanríkisráðherra um slíka stofnun er mér mikið fagnaðarefni þó mér finnist stofnunin eigi að hafa ríkari heimildir en frumvarp Ólafar gerir ráð fyrir.
 • Efla þarf embætti umboðsmanns Alþingis til muna til þess að hann geti sinnt hlutverki sínu vel. Núverandi fjársvelti umboðsmanns veldur því að hann getur ekki sinnt frumkvæðisskyldu sinni nema að mjög litlu marki. Embætti umboðsmanns hefur sýnt sig og sannað sem raunverulegur verndari mannréttinda á Íslandi og bæta þarf í, fremur en draga úr því fjármagni sem embættið hlýtur úr vösum ríkissjóðs.
 • Efla þarf aðrar eftirlitsstofnanir og úrskurðanefndir sem tryggja eiga rétt almennings gagnvart stjórnvöldum sem og einkaaðilum. Eins og staðan er í dag geta margar stofnanir ekki sinnt hlutverki sínu vegna fjárskorts eða skorts á nægjanlega skýrum valdheimildum til verndar almennings.
 • Fjöldi mannréttindasáttmála bíða fullgildingar og lögfestingar hér á landi. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi flóttamanna eru dæmi um sáttmála sem enn bíða lögfestingar hérlendis. Það er óásættanlegt með öllu.
 • Samþykkja á lögsögu sérfræðinefnda allra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að til þess að taka fyrir kærur frá einstaklingum. Þar má nefna sérfræðinefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem getur tekið við kærum frá einstaklingum vegna brota ríkja á ákvæðum alþjóðasamnings um fyrrnenfd réttindi en hefur ekki fengið lögssögu til þess frá íslenskum stjórnvöldum enn þann dag í dag. Nefndir sem þessar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í verndun mannréttinda á heimsvísu.
 • Auka þarf fræðslu um mannréttindi meðal opinberra starfsmanna. Stofnanir og ráðuneyti sem fara með mál einstaklinga ættu að standa fyrir reglulegum námskeiðum um öll helstu réttindi sem við koma starfi hverrar stofnunar fyrir sig.
 • Auka þarf meðvitund almennings um réttindi sín og skyldur. Það tel ég best að gera í skólakerfinu og með fræðsluverkefnum hvers kyns.
 • Fylgja verður eftir þingsályktunartillögu um Icelandic Modern Media Initiative til þess að stórefla verndun tjáningarfrelsis á Íslandi.
 • Meiðyrðalöggjöfina, lög um höfundarrétt og lög gegn klámi ber að endurskoða með tilliti til þeirra staðla sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur sett og varða verndu tjáningarfrelsisins.

Mannréttindi minnihlutahópa og jaðarsettra einstaklinga

Mannréttindi minnihlutahópa og jaðarsettra einstaklinga eru mér sérstaklega hugleikin. Í störfum mínum hef ég einbeitt mér að réttindum flóttamanna, fatlaðs fólks, fanga og vímuefnanotenda, ásamt réttindum fólks með geðraskanir og geðfötlun. Ég tel mikilvægt að styrkja réttarstöðu og -vernd þessara hópa til muna og hef fullan hug á að vinna áfram að því markmiði. Besti staðurinn til þess er  Alþingi.

Meðal þess sem ég hyggst beita mér fyrir til verndar mannréttindum minnihlutahópa og jaðarsettra einstaklinga eru:

Réttindi frelsissviptra

 • Taka þarf upp raunverulega betrunarstefnu á Íslandi. Fjölga þarf þeim úrræðum sem föngum standa til boða til þess að bæta líf sitt og færni. Aukinn aðgangur fanga að menntun og starfsþjálfun eru hér lykilatriði. Sakadómur ætti að leiða af sér endurhæfingu inn í samfélagið og aðeins ætti að beita frelsissviptingu í fangelsum í undantekningartilfellum þegar um mjög hættulega og/eða ofbledishneigða einstaklinga er að ræða. Stórefla þarf geðheilbrigðisþjónustu sem og aðra læknisþjónustu í fangelsum landsins. Huga þarf betur að skaðaminnkunarúrræðum innnan fangelsa á Íslandi.
 • Tryggja að innanríkisráðuneytið standi vel að útfærslu sinni á skyldum þeim er fylgja samþykkt okkar á OPCAT bókuninni svokölluðu. Píratar mæltu fyrir samþykktinni á kjörtímabilinu sem leið og ég var mjög stolt af þingmönnunum okkar þegar Alþingi samþykkti viðbótina. Samþykktin þýðir að setja verður á fót sjálfstæða eftirlitsstofnun sem veitir fangelsum og öðrum stofnunum sem sinna frelsissviptum einstaklingum aðhald.

Réttindi vímuefnanotenda

 • Vinna að afglæpavæðingu á vörslu vímuefna. Refsistefna gagnvart vímuefnanotendum gerir ekkert til þess að minnka neyslu en stóreykur þær þjáningar sem fólk með alvarlegan fíknivanda þarf að upplifa. Það er hörmulegt að mínu mati að ríkið skuli refsa fólki fyrir notkun vímuefna. Áframhaldandi refsistefna brýtur á mannréttindum, er ómannúðleg, virkar ekki og er almennt óskynsamleg. Hana ber að leggja niður hið fyrsta. Þess í stað ætti að líta á vandamál tengd neyslu sem heilbrigðismál.
 • Setja þarf vímuefnastefnu byggða á hugmyndafræði skaðaminnkunar. 

Réttindi flóttamanna og innflytjenda

 • Mig langar að leggja niður útlendingastofnun og setja hlutverk hennar undir sérstaka deild í þjóðskrá. Það ætti ekki að þurfa sérstaka stofnun til þess að skrá og fylgjast með útlendingum. Við erum ríkt land sem hefur efni á því að taka vel á móti gestum okkar sama hvaðan þeir koma.
 • Breyta verður lögum um útlendinga á þá leið að flóttamenn geti sótt um hæli á Íslandi án þess að vera staddir á Íslandi. Eins og staðan er núna er aðeins hægt að sækja um hæli á Íslandi en flóttamenn fá ekki vegabréfsáritun til þess að koma til Íslands. Það er því engin lögleg leið fyrir flóttamenn að koma til Íslands nema þeir séu handvaldir af íslenskum stjórnvöldum sem svokallaðir kvótaflóttamenn. 
 • Hætta verður með öllu að fangelsa flóttamenn fyrir framvísun falsaðra skilríkja. Flóttamenn eru reglulega hnepptir í fangelsi í tvær vikur til mánuð fyrir skjalafals ef þeir framvísa fölsuðum skilríkjum við komuna til landsins. Þessi iðja brýtur í bága við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og mismunar auk þess fólki á grundvelli þjóðernis þar sem Íslendingar fá ekki sambærilega dóma fyrir sambærileg brot.
 • Auka þarf stuðning við flóttamenn og innflytjendur til þess að hjálpa þeim að koma sér fyrir hérlendis. Bjóða ætti upp á fría íslenskukennslu fyrir alla þá sem hafa hug á að setjast hér að í einhvern tíma. Það margborgar sig til lengri tíma litið.

Málefni fólks með geðraskanir og geðfötlun/ málefni fatlaðra

 • Fullgilda þarf Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks án tafar. Eins þarf að samþykkja viðauka við samninginn sem heimilar sérfræðinefnd Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra að taka fyrir kærur frá Íslendingum sem telja að brotið hafi verið á rétti þeirra samkvæmt samningnum.
 • Taka þarf öll lög er snúa að réttindum fólks með geðraskanir og geðfötlun til gagngerrar endurskoðunar. Sérstaklega þarf að laga lögræðislögin til þess að þau standist alþjóðlegar kröfur sem og lög um réttarvernd fyrir fatlað fólk.
 • Hlutverk persónulegra talsmanna ætti að vera betur skýrt í lögum og störf þeirra launuð.

Betri stjórnsýsla

Ég lærði ekki lögfræði á Íslandi en ég hef kynnt mér íslenska stjórnsýslu og réttarfar nokkuð vel í gegnum árin. Mér þykir augljóst að breyta þarf stjórnarskránni, stjórnsýslulögum og lögum um opinbera starfsmenn til þess að byggja hér upp gott réttarkerfi sem allir geta stólað á. Eins þarf að stórefla þær stofnanir sem fara með eftirlitshlutverk gagnvart hinu opinbera. Mér finnst sérstaklega mikilvægt að koma á fót sjálfstæðu eftirliti með störfum lögreglu ásamt því að setja á fót sérstaka stofnun eða deild innan embættis ríkissaksóknara sem rannsakar spillingu og brot opinberra starfsmanna í starfi.

Aðrar úrbætur sem mér finnst mikilvægt að koma að á Alþingi Íslendinga eru:

 • Auka aðskilnað framkvæmdavalds og löggjafavalds. Breyta þarf lögum til þess að ráðherrar geti ekki samtímis verið þingmenn. Efla þarf eftirlits- og aðaldshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu.
 • Auka þarf aðgengi borgaranna að dómstólum og lögfræðingum. Allir ættu að geta haft efni á því að leita til dómstóla og njóta liðsinnis lögfræðings við úrlausn deilumála. Ríkið ætti að hafa aukna aðkomu að því að tryggja að allir fái notið réttarverndar á Íslandi og að fólki sé ekki haldið frá því að standa á rétti sínum vegna fátæktar.
 • Auka þarf ábyrgð opinberra innan stjórnsýslunnar. Stjórnsýslulögin á Íslandi virðast mér stundum bara vera upp á punt. Leiðbeiningarskyldu stjórnvalda er ekki fylgt, brotið er á andmælarétti eða ekkert er aðhafst og engar afleiðingar verða af því. Margt af þessu má að mínu mati reka til fjárskorts og skorti á þekkingu á stjórnsýslulögum og öðrum réttindum borgaranna.
 • Auka þarf samvinnu og samstarf milli stofnanna og ráðuneyta. Allt of algengt er að fjársvelti valdi samkeppni milli stofnana og ráðuneyta um fjármagn. Opinberar stofnanir ættu ekki að keppa hvor við aðra um fjármagn heldur vinna saman að sameiginlegum markmiðum í almannaþágu. Ráðuneyti og stofnanir hvers verksvið skarast verða að vinna betur saman en nú er raunin.
 • Auka þarf á gagnsæi í stjórnsýslunni. Stórefla þarf aðgengi almennings að þeim gögnum sem notuð eru í ákvarðanatöku og vinnu stjórnvalda. Setja ætti á fót sérstaka stofnun sem fer með að taka saman tölulegar upplýsingar sem og aðrar gagnlegar ópersónugreinanlegar upplýsingar um þjóðina frá öllum stofnunum landsins og setja þær upp í aðgengilega gagnagrunna til þess að þær megi nýtast stjórnvöldum jafnt sem almennum borgurum til upplýsinga.

Aukin áhersla á mannréttindi og frið í utanríkisstefnu Íslands

Mér finnst mikilvægt að Ísland taki skýra afstöðu gegn stríði og standi þess í stað með friði og mannréttindum á alþjóðavettvangi. Það krefst einnig hugrekkis til að standa með sannfæringu okkar þegar á reynir. Ísland hefur að mörgu leyti staðið sig vel í þessum efnum, til dæmis með því að viðurkenna sjálfstæði Palestínu.

En betur má ef duga skal. Til þess að gerast trúverðugir boðberar friðar þurfum við fyrst að horfa inn á við og viðurkenna aðild okkar að stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni. Ég vil standa fyrir ítarlegri rannsókn á aðkomu íslenskra stjórnvalda að fangaflugi Bandaríkjamanna. Aðild okkar að Íraksstríðinu er flekkur á mannorði okkar og ég tel einnig mikilvægt að rannsaka hvernig það gat gerst að tveir menn gátu ákveðið fyrir hönd heillar þjóðar að styðja ólöglegt innrásarstríð Bandaríkjamanna, þó ekki sé nema til að tryggja að ekkert því líkt geti gerst aftur. Auk þess vil ég beita mér fyrir heildarúttekt á veru okkar í NATO, kostum hennar og göllum, og fyrir mögulegri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina í framhaldinu.

 • Að Ísland taki sér upp lögsögu yfir stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni. Ísland er aðili að alþjóðlegum mannúðarsáttmálum og sáttmálum um alþjóðlegan refsirétt eins og Rómarsáttmálanum (stofnsáttmála alþjóðlega sakamáladómstólsins) og Genfarsáttmálunum. Samt sem áður hefur Ísland ekki ákveðið að taka sér lögsögu til þess að rétta yfir einstaklingum sem grunaðir eru um að eiga aðild að stríðsglæpum eða glæpum gegn mannkyni. Ég vil beita mér fyrir því að við tökum hér upp slíka lögsögu til þess að við getum tekið þátt í að tryggja betur þau alþjóðalög sem banna stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. Með slíkri lögsögu væri hægt að rétta yfir stríðsglæpamönnum annars staðar frá, komi þeir hingað til lands. Jafnvel er hægt að gefa út alþjóðlegar handtökuskipanir gagnvart stríðsglæpamönnum sem eru staddir erlendis. Með slíku fyrirkomulagi tækjum við skýra afstöðu með friði og gegn stríðsglæpum og öðrum voðaverkum.
 • Að menntun og fræðsla á sviði mannúðarlaga og alþjóðlegs refsiréttar verði stórefld með það að markmiði að auka mannúðarhjálp Íslendinga til muna. Ég sæi fyrir mér að koma á samstarfi við Rauða Krossinn á Íslandi og önnur sambærileg samtök til þess að byggja hér upp fyrsta flokks menntun á sviði mannúðarhjálpar.  Hægt væri að bjóða upp á marvísleg námskeið fyrir sérfræðinga eins og hjúkrunarfræðinga, lækna, verkfræðinga og lögfræðinga til þess að sinna mannúðarstarfi á stríðshrjáðum svæðum og öðrum svæðum sem eru hjálparþurfi.
 • Að auka við það fjármagn sem fer í þróunaraðstoð og nota hluta þess fjár til þess að styrkja nýsköpunarverkefni á sviði þróunar- eða mannúðarhjálpar. Íslendingar eru eftirbátar nágrannaþjóðanna þegar kemur að þróunaraðstoð. Við veitum langt undir því hlutfalli af landsframleiðslu í þróunaraðstoð og gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Þetta þarf að laga.  Við eigum mikið af hæfileikaríku og hugmyndaríku fólki, mé þætti við hæfi að efla til hugmyndasamkeppni ár hvert til þess að efla þróunaraðstoð okkar til muna.