Ræður og fyrirlestrar

Einhverra hluta vegna hefur mér alltaf þótt gaman að halda ræður og fyrirlestra. Ég veit að mörgum finnst slík iðja alveg skelfilega taugatrekkjandi – því er oft fleygt að fólk sé hræddara við að stíga á svið en við dauðann sjálfan – en það á ekki við um mig. Kannski af því að mig langaði alltaf til þess að verða leikkona þegar ég var lítil, hver veit?

Þetta ræðublæti mitt er þess valdandi að ég hef haldið nokkrar ræður og fyrirlestra hér og þar af ýmsum tilefnum. Hér að neðan má finna tengla og sýnishorn af ræðum og fyrirlestrum sem fyrirfinnast ekki á mynd- eða hljóðupptökum.  Annað sem tekist hefur að festa á miðlum ljósvakans má nálgast í valmyndinni hér að ofan undir Ræður og fyrirlestrar.

Löglegt en siðlaust, ræða haldin á Austurvelli þann 15. maí 2016:

„Löglegt en siðlaust… Aftur og aftur heyri ég málsmetandi fólk segja að deila megi um lögmæti hegðunar ráðherranna og annarra aflandseylendinga – fyrst og fremst snúist þessi flétta um siðferði. En gerir hún það? Snýst hún ekki líka um lög?

Vissuð þið að Árni Johnsen er eini stjórnmálamaðurinn sem embætti ríkissaksóknara hefur rannsakað vegna gruns um spillingu? Finnst ykkur það ekki merkilegt? Sá EINI?

Ekkert hefur heyrst frá ríkissaksóknara vegna nýlegra mála þó full ástæða virðist til að rannsaka hvort ráðherrar hafi brotið af sér í starfi.“

Ísland er hringleikahús fáránleikans, ræða haldin á Austurvelli þann 23. apríl 2016:

„Saman búum við hér, rúmlega 300.000 manneskjur á eyju sem margir utan landsteinanna álíta frjálslynda útópíu á jörð. Ef marka má erlenda fjölmiðla þá er Ísland fyrirmynd annarra þjóða í einu og öllu. Hér hafa allir það hrikalega gott, kreppan var leyst í einu allsherjar hópfaðmlagi sem lauk með nýrri stjórnarskrá og fangelsuðum fjárglæframönnum. Lögreglan okkar samanstendur af kettlingaknúsandi krúttsprengjum sem borða ís í öll mál. Íslendingar eru gullfallegir, náttúruelskandi, álfatrúað fólk með þrjár háskólagráður í vasanum.

Við vitum þó sem hér stöndum að þessi ímynd okkar á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Atburðir síðustu vikna sýndu svo ekki  verður um villst að útópían Nýja Ísland er ekki orðin að veruleika…“

Femínismi og fasismi, ræða haldin í Iðnó þann 8. mars 2015 á alþjóðlegum baráttudegi kvenna:

„Jú, meira að segja á Íslandi er feminisminn notaður sem yfirskyn þegar farið er fram með fordóma og hatur. Fordómafrullir kverúlantar þessa lands hika ekki við að smyrja ætlaðri umhyggju sinni fyrir réttindum kvenna ofan á hatursorð ætluð múslimum, útlendingum og öllum hinum sem ekki falla inn í einlita heimsmynd þeirra. Umræddir kverúlantar eru ekki bara Jón og Gunna út í bæ. Framboð Framsóknarflokksins og flugvallarvina tryggði sér tvö sæti í borgarráði bara í fyrra vor með hatursorðræðu sveipaðri retorík feminismans um að þar væri á ferðinni kvennaframboð sem einungis væri umhugað um skipulagsmál og varnir gegn nauðungahjónaböndum.

Ísland er ekki fasistaríki, sem betur fer. En eyjan okkar stendur berskjölduð gagnvart hugmyndafræði hatursins. Við höfum ekki lært af biturri reynslu hvaða ömurð fasisminn hefur í för með sér og höfum þar af leiðandi ekki komið okkur upp sterkum vörnum gegn alræðisstjórn líkt og löndin sem fengið hafa að kenna á hatrinu í sinni sterkustu mynd.“

Justice for Farkhunda, ræða haldin í Ráðhúsi Reykjavíkur þann 30. mars 2015 á athöfn til heiðurs minningar Farkhunda, ungrar konu sem var myrt af hópi manna í Afghanistan.

„Afghanistan is a place far removed from security after decades of war, and I do not know how I would fare should my destiny have been to be born there.  A woman. What I do feel is immense sympathy, anger and regret.

Regret, because I feel it would be hypocritical of me to stand here and pay tribute to Farkhunda without reflecting on my part in her death. Reflecting on the fact that we here in Iceland are part of the problem in Afghanistan.

Let us not forget that our nation fully supported our American allies in an illegal war. We took part in invading a country that posed no credible threat to us or America. Rather, Afghanistan was a convenient scapegoat, a strawman enemy that had seen too many wars before the 2001 invasion and is made to suffer them still. It is not surprising to me that empathy, justice and fairness be removed from a part of the Afghan nation, that have experienced too little love and too much war. These young men grew up in a war zone. Their crime unforgivable, unspeakable, but perhaps to be expected.“

Að ráða sér sjálfur  –  Fyrirlestur haldinn í húsakynnum Landssamtakanna Geðhjálpar í nóvember síðastliðnum.

Fyrirlesturinn fjallar um nýsamþykkt lögræðislög og mannréttindi fólks með geðraskanir og geðfötlun í því samhengi. Ég hélt svipaðan fyrirlestur á málþingi Pírata um framtíð geðheilbrigðismála á Íslandi sem var festur á filmu og nálgast má hér.