Yfirlýsing um framboð

Píratar eru breytingarafl framtíðar sem vinna í þágu gagnsæis, upplýsingafrelsis og mannréttinda. Við höfum nú þegar unnið stóra og smáa sigra í þágu þeirrar baráttu og ég trúi því að við eigum marga inni enn. Nýliðinn aðdragandi stjórnarslitanna og eftirmálar þeirra sýnir svo ekki verður um villst að tími leyndarhyggju og þöggunar er liðinn undir lok og að Pírata er þörf sem aldrei fyrr til að byggja upp vandaða stjórnsýslu framtíðarinnar.

Ég vil leggja mig alla fram við þessa vinnu og býð mig því fram til þess að leiða lista Pírata í öðru Reykjavíkurkjördæminu.

Píratar sýndu mér það traust í fyrra að velja mig sem fulltrúa sinn á framboðslista í Suðvesturkjördæmi. Ég var kjörin á þing fyrir hönd Pírata og fyrir hönd almennings í landinu og fyrir það er ég ævarandi þakklát. Ég lít á starf mitt sem þingmaður sem mikilvægasta hlutverkið sem ég hef gegnt á ævinni. Þetta tæpa ár sem ég hef verið þingmaður hefur verið ótrúlega lærdómsríkt, krefjandi og skemmtilegt, allt í senn. Ég er reynslunni ríkari og skil miklu betur en ég gerði fyrir ári síðan, hvers ég og við Píratar erum megnug inni á þingi og sem fjöldahreyfing lýðræðissinnaðra frjálslyndra einstaklinga.

Sem þingmaður hef ég komið að mörgum málum og áorkað ýmsu í þessa átta mánuði sem þingið hefur verið að störfum. Fyrsta frumvarpið sem ég tók virkan þátt í að vinna voru ný lög um Kjararáð sem voru sett í kjölfar stjarnfræðilegrar launahækkunar ráðsins á launum þingmanna og ráðherra á kjördag. Mér tókst að sannfæra meirihluta nefndarinnar um mikilvægt breytingarákvæði þess efnis að Kjararáð skyldi lúta stjórnsýslu- og upplýsingalögum, sem var stórt skref í átt til aukins gagnsæis um störf Kjararáðs. Aðrar breytingartillögur mínar um hæfniskröfur ráðsmanna Kjararáðs, hagsmunaskráningu þeirra og birtingu fundargerða ráðsins fengu þó ekki fram að ganga. Ég lærði margt í meðförum þessa máls og sótti þekkingu í raðir þingflokksins sem og til annarra í öðrum flokkum.

Þingflokkurinn valdi mig til þess að sitja í allsherjar- og menntamálanefnd og fékk ég þar aðkomu að mörgum málum sem standa mér nærri. Má þar nefna lög um útlendinga, vopnaburð lögreglu, landsréttarmálið og lög um uppreist æru og starfsréttindi lögmanna. Ég lagði fram þingsályktunartillögu um heildarendurskoðun lögræðislaga, sem eru úrelt og brjóta á mannréttindum fólks með geðröskun og geðfötlun. Nánari upplýsingar um störf mín á þingi má nálgast hér.

Um mig:

Ég er menntaður lögfræðingur, en fræðin lærði ég í fjórum háskólum víðsvegar um Evrópu (Þýskalandi, Grikklandi og Hollandi), þar sem ég sérhæfði mig í alþjóðalögum, Evrópulögum, mannréttindum og alþjóðlegum refsirétti. Frá því að ég útskrifaðist með mastersgráðu frá háskólanum í Utrecht árið 2013 hef ég búið hér heima og vann aðallega sem blaðamaður og við ritstörf tengd mannréttindum áður en ég tók sæti á þingi. Síðasta verkefni mitt sem mannréttindarithöfundur var að skrifa efnið á vefsíðunni rettindagatt.is fyrir Landssamtökin Geðhjálp en á henni má nálgast upplýsingar um mannréttindi fólks með geðröskun og geðfötlun.

 

 

Eldri færsla vegna prófkjara 2016:

 

Kæru Píratar og vinir,

Hér með tilkynnist að ég býð mig fram til þess að leiða einn þriggja lista Pírata á höfuðborgarsvæðinu fyrir komandi Alþingiskosningar.  Framboðið hef ég hugleitt lengi í ljósi þeirrar miklu ábyrgðar sem felst í því að taka sæti á Alþingi fyrir hönd Pírata. Ég tek þessa ákvörðun af því að ég trúi því af heilum hug að ég geti unnið af heilindum og ástríðu í þágu aukins réttlætis og mannúðar á Íslandi. Ég sækist eftir fyrsta sæti en mun að sjálfsögðu taka hverju því sæti sem Píratar kjósa mig í.

Um mig:

Ég er 29 ára lögfræðingur, blaðamaður og Pírati. Lögfræðina lærði ég í fjórum háskólum víðsvegar um Evrópu (Þýskalandi, Grikklandi og Hollandi), þar sem ég sérhæfði mig í alþjóðalögum, Evrópulögum, mannréttindum og alþjóðlegum refsirétti. Frá því að ég útskrifaðist með mastersgráðu frá háskólanum í Utrecht árið 2013 hef ég búið hér heima og aðallega unnið sem blaðamaður og við ritstörf tengd mannréttindum. Allar frekari upplýsingar um starfsferil minn og æviágrip má nálgast hér.

Pírötum kynntist ég í janúar 2015 í gegnum Smára McCarthy, sem bauð mér í kaffibolla eftir að hafa lesið nokkrar greinar eftir mig. Kaffibollinn breyttist reyndar í bjór og síðan í matarboð til Evu Þuríðardóttur og fleiri valinkunnra Pírata og eftir það var ekki aftur snúið. Ég var komin heim. Eftir því sem ég sótti fleiri fundi á vegum Pírata kynntist ég fleira fólki sem hafði sömu hugsjónir og ég sjálf. Úr varð að ég bauð mig fram í framkvæmdaráð Pírata. Píratar sýndu mér það traust að kjósa mig í ráðið og sat ég í því sem alþjóðafulltrúi þar til nýtt framkvæmdaráð tók við í júní síðastliðnum. Sú reynsla var mér dýrmæt og lærdómsrík og nýtist vel í núverandi stöðu minni sem nefndarmaður í úrskurðanefnd Pírata. Frekari upplýsingar um störf mín með Pírötum má nálgast hér.

Mín helstu áherslumál verða:

  1. Aukin mannréttindavernd og -vitund á Íslandi
  2. Bætt stjórnsýsla og stjórnarfar
  3. Aukin áhersla á frið og mannréttindi í utanríkisstefnu Íslands

 

  1. Mannréttindi minnihlutahópa og jaðarsettra einstaklinga eru mér sérstaklega hugleikin. Í störfum mínum hef ég einbeitt mér að réttindum flóttamanna, fatlaðs fólks, fanga og vímuefnanotenda, ásamt réttindum fólks með geðraskanir og geðfötlun. Ég tel mikilvægt að styrkja réttarstöðu og -vernd þessara hópa til muna og hef fullan hug á að vinna áfram að því markmiði. Besti staðurinn til þess er  Alþingi. Það eru þó ekki einungis mannréttindi minnihlutahópa sem eiga undir högg að sækja hér á Íslandi. Sem dæmi má nefna að tjáningarfrelsinu eru settar óhóflegar skorður með úreltum meiðyrðalögum og málflutningi óábyrgra stjórnmálamanna sem hóta gagnrýnum fjölmiðlum niðurskurði. Dómstólar standa ekki vörð um friðhelgi einkalífs með fullnægjandi hætti og gefa lögreglu allt of rúmar heimildir til að hlera símtöl og leita í húsakynnum og vösum borgaranna. Réttur okkar allra til bestu mögulegu heilsu er veginn og léttvægur fundinn af núverandi ríkisstjórn, sem sér ekkert athugavert við að horfa upp á heilbrigðiskerfið okkar hrynja. Þessi mál og fleiri verða í forgangi auðnist mér að verða þingmaður Pírata á næsta kjörtímabili.
  2. Ég lærði ekki lögfræði á Íslandi en ég hef kynnt mér íslenska stjórnsýslu og réttarfar nokkuð vel í gegnum árin. Mér þykir augljóst að breyta þarf stjórnarskránni, stjórnsýslulögum og lögum um opinbera starfsmenn til þess að byggja hér upp gott réttarkerfi sem allir geta stólað á. Eins þarf að stórefla þær stofnanir sem fara með eftirlitshlutverk gagnvart hinu opinbera. Mér finnst sérstaklega mikilvægt að koma á fót sjálfstæðu eftirliti með störfum lögreglu ásamt því að setja á fót sérstaka stofnun eða deild innan embættis ríkissaksóknara sem rannsakar spillingu og brot opinberra starfsmanna í starfi.
  3. Mér finnst mikilvægt að Ísland taki skýra afstöðu gegn stríði og standi þess í stað með friði og mannréttindum á alþjóðavettvangi. Það krefst einnig hugrekkis til að standa með sannfæringu okkar þegar á reynir. Ísland hefur að mörgu leyti staðið sig vel í þessum efnum, til dæmis með því að viðurkenna sjálfstæði Palestínu. En betur má ef duga skal. Til þess að gerast trúverðugir boðberar friðar þurfum við fyrst að horfa inn á við og viðurkenna aðild okkar að stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni. Ég vil standa fyrir ítarlegri rannsókn á aðkomu íslenskra stjórnvalda að fangaflugi Bandaríkjamanna. Aðild okkar að Íraksstríðinu er flekkur á mannorði okkar og ég tel einnig mikilvægt að rannsaka hvernig það gat gerst að tveir menn gátu ákveðið fyrir hönd heillar þjóðar að styðja ólöglegt innrásarstríð Bandaríkjamanna, þó ekki sé nema til að tryggja að ekkert því líkt geti gerst aftur. Loks vil ég beita mér fyrir heildarúttekt á veru okkar í NATO, kostum hennar og göllum, og fyrir mögulegri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina í framhaldinu.

Nánari útfærslur og frekari upplýsingar um þau mál sem brenna helst á mér má finna hér.

Ástæðan fyrir því að ég geri ekki upp á milli kjördæma er sú að mér finnst ég eiga heima í þeim öllum. Ég ólst upp í Mosfellsbæ frá þrettán ára aldri og þar er heimili foreldra minna, sem er mér mikill griðarstaður. Aftur á móti hefur félagslíf mitt að mestu átt heima í Reykjavík, vinir mínir og kunningjar eru flestir búsettir þar og með þeim eyði ég mörgum gæðastundum. Auk þess bjó ég í miðbæ Reykjavíkur síðastliðin tvö ár eða þar til í júní þegar ég missti húsnæðið vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Tímabundið er ég því flutt aftur heim í Mosfellsbæinn til foreldra minna þar til ég finn hentugt húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Þó ég tali um að „fara í bæinn“ þegar ég er í Mosfellsbænum, vinum mínum frá landsbyggðinni til mikillar skemmtunar, þá geri ég lítinn greinarmun á Kraganum og Reykjavík og tel mig geta verið öllum þessum kjördæmum til sóma hljóti ég brautargengi.