Sjónvarpsviðtöl

Viðtal við TRT World vegna Panamalekans

Ég var beðin um að koma í viðtal við alþjóðaútgáfu Tyrkneska ríkissjónvarpsins til þess að ræða Pírata og Panamalekan. Viðtalið má horfa á hér að neðan

 

Kastljósviðtal vegna Hraunbæjarmálsins

Sævar Rafn Jónasson lést í desember árið 2013 af völdum skotsára sem sérsveit lögreglu veitti honum þegar hún réðst inn á heimili hans eftir nokkurra klukkustunda umsátur. Þegar ljóst varð að Ríkissaksóknari færi fyrir rannsókn málsins og að rannsóknin yrði framkvæmd fyrir luktum dyrum hóf ég að skrifa greinar um málið. Mér þótti ljóst að rannsóknin stæðist ekki kröfur Mannréttindadómstóls Evrópu um sjálfstæða og óháða rannsókn á mannslátum af völdum löggæsluyfirvalda.

Ég skrifaði greinar um rannsókn málsins og vankanta hennar og tók að mér að vera lögfræðingur systur Sævars í samskiptum hennar við Ríkissaksóknara vegna málsins. Þegar Ríkissaksóknari gaf út skýrslu sína um Hraunbæjarmálið svokallaða fór ég virkilega að efast um réttmæti þeirra aðgerða lögreglu er urðu Sævari að bana og því skrifaði ég fleiri greinar sem allar má nálgast hér.

Fyrir hönd systur Sævars óskaði ég eftir aðgangi að rannsóknargögnum málsins til þess að varpa frekara ljósi á skýrslu Ríkissaksóknara sem mér þótti ósannfærandi og óvönduð. Ríkissaksóknari veitti okkur aðeins takmarkaðan aðgang að gögnum málsins en þar mátti þó finna sönnur þess að Ríkissaksóknari fór rangt með veigamikil atriði í skýrslu sinni um málið. Þá hafði Helgi Seljan sýnt greinum mínum og málinu sjálfu mikinn áhuga og úr varð að við unnum saman að efni í Kastljósþætti um málið. Það var frábært að vinna með Helga og kann ég honum miklar þakkir fyrir að hafa gert jafn vandaða þætti um þetta viðkvæma mál og raun bar vitni. Þættina tvo má nálgast hér að neðan.

Fyrri hluti:

Síðari hluti: