Starfið með Pírötum

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar núverandi ríkisstjórn var kjörin árið 2013. Mér fannst við ekkert hafa lært af hruninu og ég var í raun mjög reið yfir því að þeim skyldi treyst til forystu svo fljótt eftir sögulegt klúður þeirra og vanrækslu. Íslensk stjórnmál þóttu mér vond og leiðinleg og ég gat alls ekki hugsað mér að taka þátt í þeim. Ætlun mín var einfaldlega að koma heim í nokkur ár, ná mér í góða starfsreynslu og halda aftur á vit ævintýranna í útlöndum. Mér fannst útséð með að ekkert myndi breytast á Íslandi og að hér biði mín engin framtíð.

Ég hafði þó fylgst með Pírötum úr fjarlægð á meðan ég bjó úti og kynnst þeim lítillega eftir að ég flutti heim. Það var þó ekki fyrr en í janúar 2015 sem ég kynntist þeim betur þegar Smári McCarthy hafði samband við mig og vildi hitta mig í kaffibolla. Smári hafði lesið nokkrar greinar eftir mig sem honum þóttu góðar og hann vildi nýta tækifærið á meðan hann var á landinu til þess að hitta mig og spjalla um mannréttindi og aðra áhugaverða hluti.

Ekkert varð af kaffibollanum áætlaða en þess í stað hittumst við og fengum okkur bjór saman. Nokkrum dögum seinna bauð Smári mér með í matarboð með nokkrum góðum Pírötum og eftir það var ekki aftur snúið. Ég hef verið forfallinn Pírati allar götur síðan. Smára hitti ég því miður allt of sjaldan þar sem hann er enn búsettur í Sarajevo en ég hlakka mikið til að fá hann heim í ágúst.

Kosin í framkvæmdaráð
Frá aðalfundi Pírata 2015, hér ber að líta mig í fríðu föruneyti meðlima framkvæmdaráðs Pírata.

Það var stór ákvörðun að velja að fara í prófkjör fyrir Pírata og um tíma var ég alls ekki viss um hvort ég myndi láta verða af því þrátt fyrir mikla hvatningu víðsvegar að úr flokknum. Kosningarbarátta er oft á tíðum mikill leðjuslagur og ég þurfti góðan tíma til þess að íhuga hvort ég væri yfirhöfuð með nógu þykkan skráp til að þola skítkastið sem mögulega vænta má í slíkri baráttu. Eins vissi ég ekki hvort mér hugnaðist þingseta yfir höfuð, þar sem ég veit að líf þingmannsins er ekki dans á rósum. Ég ákvað að slá til þar sem mér þykja Píratar vera síðasta von okkar á Íslandi og eina von mín um að geta staðið fyrir raunverulegum og góðum breytingum í Íslensku þjóðfélagi.

Ég hef starfað alls konar með Pírötum, ég sat sem alþjóðafulltrúi framkvæmdaráðs í eitt ár og sit nú sem nefndarmaður í úrskurðanefnd flokksins. Þá hef ég verið umsjónarkona sjónvarpsþáttarins Strandhöggs ásamt Söru Óskarsson, sem er sjónvarpsþáttur á vegum íslenskra Pírata. Eins hef ég komið að alls konar stefnumótun og fundarhaldi á vegum flokksins og er fastur gestur í Tortuga, höfuðstöðvum Pírata. Mér þykir ótrúlega vænt um fólkið sem er með mér í flokknum, enda eintómir snillingar þar á ferð. Sama hvernig fer í þessu prófkjöri veit ég að ég verð alltaf viðloðandi Píratana mína. Ég er komin heim.

Olga og Sunna með fána
Við Olga Margrét Cilia í Tortuga, sáttar eftir vel heppnaðan aðalfund 2016.