Fyrsti í prófkjöri: Hvað varð um rannsókn á aðkomu íslenskra stjórnvalda að fangaflugi Bandaríkjamanna?

Þá er komið að því! Prófkjör Pírata á höfuðborgarsvæðinu hófst í dag. Prófkjörið fer fram á kosningakerfi Pírata á x.piratar.is og stendur yfir í 10 daga. Þetta er spennandi prófkjör og Píratar hafa úr mörgum góðum kostum að velja. Eins og margir eflaust vita þá hef ég boðið mig fram í prófkjörinu. Næstu daga mun ég skrifa nokkra bloggpistla um ýmis málefni sem mér þykja athyglisverð og mikilvæg til þess að kynna mig og mínar áherslur fyrir Pírötum.

Fyrsti í prófkjöri og málefnið varðar stríðsglæpi!

Fyrsta bloggið varðar upprifjun á hlutdeild íslenskra yfirvalda í ólöglegum fangaflugum Bandaríkjamanna í gegnum íslenska lögsögu á árunum 2001 til 2007. Fyrir þá sem þekkja ekki málið sem um ræðir þá liggur fyrir að um 200 flugvélar á vegum bandarísku leyniþjónustunnar millilentu á Íslandi á leið sinni til landa þar sem leynileg fangelsi sem notuð voru til pyntinga á stríðsföngum Bandaríkjamanna var að finna.

Bandaríkjamenn hafa sjálfir viðurkennt að hafa stundað víðtækar og viðbjóðslegar pyntingar á stríðsföngum í leynifangelsum víða um heim. Allt var þetta staðfest í umfangsmikilli skýrslu sem Bandaríkjaþing gaf út veturinn 2014.

Ísland: Boðberi friðar

Ég vil beita mér fyrir því að Ísland taki sér leiðandi stöðu sem boðberi friðar og réttlætis á alþjóðavettvangi. Endurtekið hljótum við alþjóðlega viðurkenningu sem friðsælasta ríki heims en mér finnst við ekki eiga þann titill fyllilega inni.

Til þess að vera trúverðugur boðberi friðar finnst mér nauðsynlegt að Ísland viðurkenni og taki ábyrgð á hlutdeild sinni í stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni í áranna rás. Auðvitað gæti ég skrifað um önnur nýleg dæmi, eins og aðild Íslands að ólöglegum innrásarstríðum í Írak og Afganistan eða þá eldri mál eins og ólöglegar sprengjuárásir NATO á Serbíu á níunda áratug síðustu aldar.Allt eru þetta alvarleg mál sem þarfnast ítarlegra  rannsókna að mínu mati.

Fangaflugsmálið varð fyrir valinu vegna þess að þar er um að ræða líklega beina aðild íslenskra yfirvalda í stríðsglæpum innan íslenskrar lögsögu. Hvergi er þörfin fyrir óháða rannsókn jafn augljós og aðkallandi. Pyntingar eru stríðsglæpur og glæpur gegn mannkyni og íslenskum yfirvöldum ber rík lagaleg skylda til þess að rannsaka til hlítar hvort aðilar innan stjórnsýslunnar okkar hafi á einhvern hátt hylmt yfir eða aðstoðað Bandaríkjamenn við fangaflutningana í gegnum íslenska lögsögu.

Mér finnst mikilvægt að minna á fangaflugsmálið vegna þess að ég vil að Píratar viti að  komist ég á Alþingi mun ég beita mér fyrir því að fangaflugsmálið verði rannsakað af óháðum aðilum.

Aðild að fangaflugi er stríðsglæpur!

Við vitum að fangar voru strekktir á börur og hafðir í bleium og barðir á meðan fangaflugum stóð. Það er orðið ljóst að pyndingameistarar CIA neyddu fanga til þess að standa á brotnum fótum, þröngvuðu hummus upp í endaþarmsop eins, hótuðu að nauðga móður annars fyrir framan hann, hótuðu að myrða börn nokkurra, hengdu marga upp á höndum og héldu þeim vakandi í allt að viku og drápu nokkra líka.

Við vitum að CIA laug um árangurinn sem náðist af þessum stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni. Við vitum að CIA hylmdi yfir verstu brotin og að pyndingar voru stundaðar í mun meiri mæli en óttast var.

Hlutdeild í stríðsglæpum er stríðsglæpur

Við vitum að fjöldi bandarískra fangaflugvéla millilenti á Íslandi, að þær voru á leið til leynifangelsa Bandaríkjamanna víða um heim, þangað sem pynta átti fangana að vild. Þetta var líka allt á vitorði stjórnvalda. Augljóst reyndar af endurskilgreiningu Bush á hugtakinu pyntingar, á endurskilgreiningu hans á því hverjir skyldu teljast „bardagamenn“ og hverjir ekki til þess að sneiða fram hjá Genfarsáttmálanum. Augljóst líka af skýrslu Evrópuráðsins um fangaflug. Af skýrslum Amnesty International og Open Society Foundation, sem báðar staðfestu að fangaflug hefði farið í gegn um íslenska lögsögu.

Fram til ársins 2007 þvertók ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks þó fyrir vitneskju af hryllingnum og harðneitaði að rannsaka aðkomu íslenskra yfirvalda að pyndingaleigubílunum („Torture Taxi“) svokölluðu.

Svipaða sögu er að segja af ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks árið 2007. Fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, lét framkvæma hvítþvottarrannsókn á aðild íslenskra yfirvalda að fangaflugi Bandaríkjamanna árið 2007. Hún skipaði starfshóp úr röðum utanríkisráðuneytisins sem þótti of „kostnaðarsamt“ og „óraunhæft“ að reyna að komast að því hvort fangar hefðu raunverulega verið um borð í þeim fjölda flugvéla sem tengdar voru við fangaflug Bandaríkjamanna og millilentu á Íslandi. Rannsóknin skilaði því engum haldbærum niðurstöðum og yfirvöld tóku alfarið fyrir að rannsaka það eitthvað frekar.

Af hverju núna?

Þegar pyntingarskýrslan leit dagsins ljós hreifst ég fyrst af verkum Pírata á Alþingi. Píratar höfðu hugrekkið til þess að standa fyrir þingsályktunartillögu um að fordæma skyldi pyntingarherferð Bandaríkjamanna. Auðvitað komst tillagan ekki langt á Alþingi en hún fékk þó umræðu og viðurkenningu. Ekki afneitun og hvítþvott eins og ríkisstjórnarflokkar margir höfðu tamið sér gagnvart pyntingum Bandaríkjamanna fram að þessu.

Fangaflugsmálið þekki ég vel enda skrifaði ég ítarlegar greinar um það í Kvennablaðið þegar pyntingaskýrsla Bandaríkjaþings kom út. Greinarnar má lesa hér og hér.  Þar að auki ræddi ég það við Heimi Má Pétursson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Á sama tíma lofaði fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, að rannsaka skyldi þátt Íslands í fangaflugum Bandaríkjamanna á ný í kjölfar útgáfu skýrslunnar. Ekkert virðist þó hafa orðið af þessari rannsókn.

Fangaflugsmálið hefur rifjast reglulega upp fyrir mér undanfarna mánuði og vikur vegna sívaxandi vinsælda bandaríska forsetaframbjóðandans Donald Trump. Eitt af fjölmörgum og snarklikkuðum kosningarloforðum Trump er að hefja pyntingar á stríðsföngum Bandaríkjamanna að nýju. Eins hefur hann lýst því yfir að myrða eigi fjölskyldumeðlimi hryðjuverkamanna.

Verði sú hryllilega heimsmynd að raunveruleika að Donald Trump sitji í forsetisstóli Bandaríkjanna vona ég að við hefjum í það minnsta vinnu við að tryggja að Ísland gerist aldrei aftur samsekt pyntingarherferðum og leynifangelsavæðingu Bandaríkjamanna.

Stríðsglæpir fyrnast ekki. Þeir ættu ekki að gleymast heldur.

 

 

 

 

 

 


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s