Dómsmálaráðherra og Dyflinnarreglugerðin

Sigríður Á. Andersen, nýsettur dómsmálaráðherra sat fyrir svörum um fyrirhugaðar breytingar á Dyflinnarreglugerðinni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Fyrirspurnin var til komin vegna fréttar á vef Innanríkisráðuneytisins um að ráðherra hafi komið á framfæri „efasemdum Íslands gagnvart fyrirhuguðum breytingum á Dyflinnarreglugerðinni, þ.e. aukinni samábyrgð vegna afgreiðslu hælisumsókna og áframflutningi hælisleitenda frá þeim ríkjum Evrópu sem taka á móti flestum hælisumsóknum til ríkja sem ekki sæta sambærilegri ásókn hælisleitenda.“

Í fréttinni kemur einnig fram að ráðherrann teldi slíkar breytingar fela í sér grundvallarbreytingu á ríkjasamstarfinu.

Frétt innanríkisráðuneytisins er ekki ítarleg en vakti þó upp hjá mér ákveðnar spurningar. Ísland hefur hingað til forðast að taka raunverulega sameiginlega ábyrgð með öðrum ríkjum Evrópu vegna landfræðilegrar stöðu landsins, en hún felur í sér að við erum aldrei fyrsti viðkomustaður hælisleitenda og við getum því nánast alltaf sent fólk úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Framkvæmdin hérlendis hefur verið með því móti að við nýtum allar heimildir til þess að endursenda fólk til landa þar sem grundvallarmannréttindum þeirra er hætta búin til þess eins að þurfa ekki að taka okkar skerf. Gott dæmi þar um eru ítrekaðar brottvísanir íslenskra yfirvalda á hælisleitendum til Ítalíu, nú síðast samkynhneigðs manns frá Íran sem er veruleg hætta búin á Ítalíu. Eins og við vitum er Ítalía meðal þeirra landa sem taka þurfa á móti flestum hælisleitendum ásamt Grikklandi, Möltu og Spáni. Aðbúnaður fyrir hælisleitendur í Ítalíu er með versta móti og hefur flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna mælt eindregið gegn endursendingum hælisleitenda til Ítalíu, sérstaklega ef þeir tilheyra sérlega viðkvæmum hópum.

Á þessum grunni spurði ég hæstv. ráðherra að þrennu:

  • Hvaða breytingar eru það nákvæmlega sem ráðherra telur að feli í sér grundvallarbreytingu á ríkjasamstarfinu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar?
  • Er ráðherra andvíg hugmyndinni um aukna samábyrgð Evrópuríkja vegna afgreiðslu hælisumsókna?
  • Hyggst ráðherra beita sér gegn brottvísunum hælisleitenda til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, einkum þegar um er að ræða einstaklinga sem tilheyra varnarlausum hópum eins og Amír, samkynhneigði hælisleitandinn frá Íran, er dæmi um?

Svör og ekki svör

Ráðherra svaraði alls ekki fyrirspurn minni gagnvart brottvísun hælisleitenda héðan og til Ítalíu.  Mögulega má rekja það til þess að í allri innanríkisráðuneytisvaldatíð Sjálfstæðisflokksins hefur það reynst dóms/og innanríkisráðherrum flokksins ómögulegt að stöðva ómannúðlegar brottvísanir Útlendingastofnunar til Ítalíu. Þó undirrituð voni auðvitað að núverandi ráðherra gangi betur en forvera hennar að standa vörð um mannréttindi þeirra einstaklinga sem hingað sækja í leit að alþjóðlegri vernd.

Önnur svör ráðherrans voru tiltörulega óljós og gáfu að mínu mati ekki fullnægjandi mynd af afstöðu ráðherrans. Ég verð þó að lýsa yfir ánægju minni að ráðherra hafi lýst yfir áhuga á aukinni samábyrgð Íslands í þessum málum. Eins er gott að heyra að ráðherra virðist meðvituð um einhverja þeirra stórkostlegu galla sem fyrirhugaðar breytingar á Dyflinnarreglugerðinni munu hafa í för með sér fyrir alla hlutaðeigandi.

Umræðurnar má spila hér í heild sinni en fyrir áhugasama um alvarlegar afleiðingar fyrirhugaðra breytinga á Dyflinnarreglugerðinni hef ég einnig bætt við nokkrum hlekkjum á úttektir og skýrslur mannréttindasamtaka um einmitt þetta mál hér að neðan.

Ég vil einnig nota þetta tækifæri til þess að minna á samstöðufund með hælisleitendum fyrir utan Alþingi á fimmtudaginn kemur kl. 16.00.

Myndin með færslunni er eftir Ara Hlyn Guðmundsson Yates, en hann var svo góður að gera hana fyrir málþing sem ég stóð að með félaginu mínu MFÍK og fleiri flottum hópum árið 2014 og sneri að málefnum flóttamanna á Íslandi. 

Skýrsla unnin fyrir Evrópuþingið um alvarlegar afleiðingar fyrirhugaðra breytinga á Dyflinnarreglugerðinni:

http://www.europarl.europa.eu/RegData/etudes/STUD/2016/571360/IPOL_STU(2016)571360_EN.pdf

Skýrsla Evrópuráðs fyrir flóttamenn:

http://www.ecre.org/wp-content/uploads/2016/10/ECRE-Comments-Dublin-IV.pdf

Skýrsla alþjóðanefndar lögfræðinga:

http://www.icj.org/wp-content/uploads/2016/09/EU-Dublin-IV-Regulation_Comment-Advocacy-Analysis-Brief-2016-ENG.pdf


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s