Alþjóðlegur dagur gegn kynþáttamismunun og hatri

Í dag, þann 21. mars, er alþjóðlegur dagur gegn kynþáttamismunun og hatri. Dagsins er er minnst því að þennan dag árið 1960 skutu Suður Afrískir lögreglumenn í Sharpville tugi manna til bana fyrir það eitt að mótmæla friðsamlega kynþáttaaðskilnaðarlögum þar í landi.

Dagurinn í ár er sérlega tileinkaður baráttunni gegn hatursorðræðu og hatursglæpum. Sameinuðu þjóðirnar leggja af þessu tilefni sérstaka áherslu á að vinna gegn fordómum, hatursáróðri og hatursglæpum gagnvart flóttamönnum. Verkefnið er brýnt því eins og við vitum öll, eru fordómar og hatur gagnvart þessum viðkvæma hópi í hámæli sem aftur veldur víðtækri mismunun og ofbeldi gegn fólki á flótta hér heima sem og erlendis. Ég vakti athygli á þessum degi á þingi í dag undir dagskrárliðnum störf þingsins, en horfa má á ræðuna í spilaranum hér að neðan  (Ræðan byrjar á 10:34m):

Útvarpsstöðvar eiga ekki mannréttindi

Sem formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sat ég fyrir skemmstu fund stjórnar þingsins með Christian Ahlund, formanni Evrópunefndar gegn kynþáttarfordómum og umburðarleysi til þess að ræða helstu áherslur og áskoranir nefndarinnar.

Eins gafst okkur formanninum tækifæri til þess að ræða nýafstaðna eftirlitsferð nefndarinnar til Íslands og þá ómaklegu gagnrýni sem nefndin hefur sætt af hálfu Útvarps Sögu og talsmanna hennar, þess efnis að nefndin hafi brotið á mannréttindum útvarpsstöðvarinnar fyrir það eitt að hafa vísað til ítrekaðra hatursfullra ummæla sem látin eru falla með reglulegu millibili á þeirri útvarpsstöð. Formaðurinn var sammála þeirri sem hér stendur að á meðan málfrelsi væri vissulega mikilvægur réttur til þess að vernda nytu útvarpsstöðvar ekki mannréttinda.

Ég og formaður
Undirrituð og Christian Åhland, formaður Evrópunefndar gegn kynþáttarfordómum og umburðarleysi

Málfrelsi er mikilvægt!

Málfrelsi er mikilvægt og raunar óaðskiljanlegt lýðræðislegu samfélagi – en orðum fylgir ábyrgð og orðum fylgja afleiðingar. Við berum því ábyrgð á þeim orðum sem við notum til þess að lýsa fólki. Það er enda engin tilviljun að Evrópa, og Ísland þar á meðal líti þögul undan á meðan þúsundir manna drukkna við strendur álfunnar. Við notum orðin til þess að réttlæta þessi voðaverk okkar, við köllum þau hælisleitendur, við tölum um fólksflutninga við köllum þau ólöglega innflytjendur. Þó aldrei dytti nokkrum manni í hug að kalla Evrópubúa sem flytja á milli landa nöfnum af þessum toga.

Við réttlætum meðferðina á þeim, brottvísanir í skjóli nætur, algjört skeytingarleysi okkar gagnvart afdrifum þeirra að brottvísun lokinni, með því að kalla umsóknir þeirra um vernd – tilhæfulausar – með því að kalla þau hælisleitendur – með því að kalla þau Flóttamannatúrista. En þær bera öll nöfn, þessar manneskjur sem við komum svona fram við – þær heita Amir, og Eze eða Abdolhamid svo dæmi séu tekin.

Amir – sem búast má við að verði sendur til Íran til aftöku eftir ómanneskjulega og viðbjóðslega brottvísun hans úr landi, þar sem lögreglan sat fyrir honum á leið sinni frá geðdeild, leyfði honum ekki að sækja eigur sínar né kveðja vini sína, heldur fjarlægði hann eins og hvert annað rusl.

Eze, sem eins og margir vita varð leikskoppur fyrrverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í ógóðefelldum pólitískum glæpaleik – hann er nú í Svíþjóð með óvissa framtíð, fjarri barni sínu, sem er búsett hér á Íslandi.

Abdulhamed, afganskur flóttamaður sem verið hefur í hungurverkfalli síðustu vikur, var lokaður af frá vinum og velgjörðarmönnum og loks handtekinn fyrir skömmu og líklegast færður á brott í skjóli nætur eins og svo margir aðrir sem hingað koma í leit að aðstoð, samkennd og hjálp.

Í mínum huga er þessi dagur tileinkaður þeim, sem við kjósum að afmennska með orðum okkar byggð á fordómum og hatri.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s