Æviágrip

Fyrstu árin

Ég fæddist á Akranesi þann 6. maí 1987. Foreldrar mínir, þau Sigrún Guðmundsdóttir og Ævar Örn Jósepsson, fluttu til Freiburg í Þýskalandi nokkrum mánuðum síðar til þess að hefja nám. Við bjuggum í Freiburg til ársins 1994 þegar foreldrar mínir ákváðu að flytja heim með mig og Eddu Karólínu, yngri systur mína. Fyrstu árin á Íslandi bjuggum við í Hjónagörðunum og síðar Norðurmýrinni þar til foreldrar mínir fundu okkur fallegt hús í Mosfellsbænum árið 2000.

Sem barn var ég mjög opinská og sjálfsörugg. Mér þótti fátt skemmtilegra en að stíga á

prinsessan
Það blundaði snemma í mér leiðtogaeðlið

svið og koma fram á einn eða annan hátt. Í hvert sinn sem foreldrar mínir fengu vini eða vandamenn í heimsókn bjó ég til leiksýningar eða dansverk fyrir gestina. Lengi ætlaði ég að verða leikkona eða leiksstjóri þegar ég yrði stór. Framkoma og tjáning var í miklu uppáhaldi og ég fór á mörg leiklistarnámskeið hjá Elísabetu Brekkan í námsflokkum Reykjavíkur. Í sjöunda bekk tók ég þátt í stóru upplestrarkeppninni í Mosfellsbæ og vann þá keppni. Í framhaldsskóla tók ég þátt í Morfís fyrir hönd Fjölbrautarskólans í Breiðholti. Það gekk þó ekki betur en svo að liðið okkar datt út í fyrstu keppni við Kvennaskólann.

Húsið í Mosfellsbænum reyndist frábært heimili og foreldrar mínir búa þar enn. Ég á margar fallegar minningar úr Mosfellsbænum en aðrar miður skemmtilegar. Mér reyndist mjög erfitt að eignast vini í gagnfræðiskóla Mosfellsbæjar, en ég var þrettán ára þegar ég hóf nám þar. Ég var lögð í mikið einelti, sérstaklega í áttunda og níunda bekk sem loks varð til þess að ég skipti um skóla og kláraði níunda og tíunda bekk í Laugarlækjarskóla. Þar var tekið vel á móti mér og síðustu árin í grunnskóla leið mér eins vel og óöruggum unglingi getur liðið. Eineltið í Mosfellsbæ hafði þó mikil áhrif á mig og skildi eftir sár sem ég þurfti að vinna með talsvert lengi.

Í dag lít ég svo á að þessi lífsreynsla hafi gert mig að betri manneskju sem getur ekki hugsað mér að koma fram við annað fólk, eins og komið var fram við mig þessi mótandi ár. Eineltið á einnig stóran þátt í því að ég ákvað að verða lögfræðingur. Þegar mér leið hvað verst í skólanum las ég gjarnan sjálfsævisögur kvenna frá Mið-Austurlöndum sem höfðu þurft að þola mikið óréttlæti og ofbeldi. Ég fann fyrir mikilli samkennd með konunum og sögur þeirra gerðu mig í senn þakkláta fyrir að hafa fæðst á Íslandi þrátt fyrir mótlætið og staðráðna í að læra alþjóðalög til þess að hjálpa fólki sem ekki var jafn heppið og ég.  Í kjölfar átaks samtakanna Á allra vörum (Einelti er ógeð) í fyrra deildi ég reynslu minni af einelti og áhrifum þess á líf mitt með blaðamanni Stundarinnar, viðtalið má nálgast hér. 

Allt frá átta ára aldri var ég staðráðin í því að fara í Menntaskólann við Hamrahlíð. Heimasætan á hæðini fyrir ofan okkur í Norðurmýrinni var í MH og ég leit afskaplega upp til hennar. Það reyndist mér því mjög erfitt þegar ég komst ekki inn þrátt fyrir fínar einkunnir og um tíma var útlit fyrir að ég færi ekki í menntaskóla fyrsta árið þar sem MR var annað val mitt og þar var allt fullt líka. Ég fékk þó inngöngu í MR en sá skóli hentaði mér ekki og ég lauk framhaldsskólanáminu á málabraut í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti.

Háskólanámið

Ég var búin að ákveða að gerast alþjóðalögfræðingur en ég fann hvergi háskóla sem bauð upp á að læra alþjóðalög í grunnnámi þegar ég útskrifaðist úr menntaskóla árið 2007. Fyrst þurfti ég því að læra almenna lögfræði og sérhæfa mig síðar í alþjóðalögum. Mig langaði alltaf að fara í háskólanám erlendis rétt eins og foreldrar mínir höfðu gert. Ég íhugaði nám í Bretlandi, Bandaríkjunum eða Þýskalandi og úr varð að ég flutti til Frankfurt að læra þýska lögfræði. Námið í Frankfurt var í senn krefjandi og skemmtilegt og ég komst fljótt að því að lögfræðin væri fag sem hentaði huga mínum vel.

Haustið 2008 var afdrifaríkt í mínu lífi líkt og margra annarra Íslendinga. Kreppan gerði mér nánast ómögulegt að halda náminu áfram þar sem krónan hafði hrunið gagnvart Evrunni og kostnaðurinn við námið þrefaldaðist á einni nóttu. Ég hélt þó áfram í nokkra mánuði eftir hrun eða allt þar til ég heyrði af nýrri námsbraut í háskólanum í Groningen í Hollandi: Loks var í boði bachelor gráða í Alþjóða- og Evrópulögum. Ég afréð því að flytja heim tímabundið til þess að safna pening og hefja nýtt nám í Hollandi haustið 2009.

Groningen 1
Michael vinur minn og ég á góðri stundu í Groningen. Eins og svo oft í Hollandi var ég með hjól meðferðis.

Ákvörðunin að skipta um nám var eflaust ein sú besta sem ég hef tekið í mínu lífi hingað til. Flutningurinn heim gerði mér kleift að taka þátt í Búsáhaldarbyltingunni sem hafði mikil áhrif á mig og jók til muna áhuga minn á stjórnmálum á Íslandi, sem þó var ansi mikill fyrir. Ég tók þátt í starfi Borgarahreyfingarinnar og tók uppfyllingarsæti á lista þeirra í Suðvesturkjördæmi í kosningunum vorið 2009. Ég var því full bjartsýni og eldmóði þegar ég flutti til Hollands síðar um árið til þess að hefja nám í Groningen. Námið var frábært og mér líkaði afskaplega vel að búa í Groningen þar sem ég eignaðist fjöldan allan af vinum alls staðar að úr heiminum.

Ég fór í skiptinám til Þessalónikku í Grikklandi haustið 2011. Vera mín í Grikklandi kenndi mér ótal margt eins og að grískur matur er mjög góður og að grískt fólk er einstaklega gestrisið og hjartahlýtt upp til hópa. Ástandið í Grikklandi árið 2011 var heldur dapurlegt. Alls staðar mátti sjá byggingar að hruni komnar og grískir vinir mínir þurftu að vinna baki brotnu fyrir lúsarlaunum til þess að lifa af. Mótmæli og uppþot voru algeng og opinberir starfsmenn fóru reglulega í verkföll. Fátæktin þar var miklu sýnilegri heldur en hér heima, eða í Þýskalandi og Hollandi og mér þótti erfitt að horfa upp á þjáningar grísku vina minna sem unnu svo mikið en áttu svo lítið. Vinir mínir sýndu mér þó að hægt er að vera dapur yfir ástandinu í landinu sínu en leyfa depurðinni ekki að stöðva sig í að njóta lífsins og gefa af sér. Kærleikurinn ræður för í hjörtum vina minna í Grikklandi sem ég sakna á hverjum degi.

Thessaloniki
Það var hreint út sagt yndisleg lífsreynsla að búa í Grikklandi.

Ég útskrifaðist með LLB gráðu í alþjóða- og Evrópulögum sumarið 2012 og kaus að halda strax áfram í meistaranám. Háskólinn í Utrecht í Hollandi varð fyrir valinu en þar kláraði ég LLM gráðu í mannréttindum og alþjóðlegum refsirétti. Námið var mjög krefjandi og einstaklega áhugavert. Að því loknu flutti ég aftur heim til foreldra minna í Mosfellsbænum.

Starfsferillinn

Mér varð fljótlega ljóst eftir komu mína heim að ekki yrði gengið að því að fá starf við mitt hæfi. Offramboð var af lögfræðingum á vinnumarkaðnum og lítil eftirspurn eftir lögfræðingi eins og mér, sem hafði lært allt mitt úti. Það leið því talsverður tími frá því að ég útskrifaðist og þar til ég fékk mín fyrstu verkefni. Þau reyndust líka allt annars eðlis en ég hafði séð fyrir mér í upphafi; ég gerðist blaðamaður fyrir Kvennablaðið.

Blaðamannaferillinn hófst með Hraunbæjarmálinu svokallaða. Mér blöskraði þegar mér varð ljóst að ríkissaksóknari ætlaði að stýra rannsókn á dauða Sævars Rafns Jónassonar, sem féll fyrir hendi lögreglu árið 2013. Ég vissi enda að fyrirkomulag rannsóknarinnar væri ekki í samræmi við þá staðla sem Mannréttindadómstóll Evrópu hafði sett meðlimaríkjum í málum sem þessum. Úr varð að ég skrifaði grein um málið í Reykjavík Grapevine vorið 2014 og þýddi hana fyrir Kvennablaðið nokkrum mánuðum síðar. Greinin vakti talsverða athygli og Steinunn Ólína, ritstóri Kvennablaðsins, bað mig um að skrifa fleiri greinar gegn greiðslu. Upp hófst gott samstarf okkar á milli og ég skrifaði fjöldan allan af greinum um Hraunbæjarmálið en líka ýmislegt annað, flest tengt mannréttindum á einn eða annan hátt. Hægt er að finna hlekki á flestar greinar sem ég hef skrifað fyrir Kvennablaðið hér.

Sumarið 2014 lagði ég aftur land undir fót og hélt til Hag í Hollandi í starfsnám hjá alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum fyrir fyrrum Júgóslavíu. Þar vann ég í þrjá mánuði í varnarliði sakbornings að nafni Goran Hadzic og þar fékk ég góða innsýn inn í hvernig alþjóðleg réttarvarsla gengur fyrir sig. Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar veitti mér styrk til þess að halda fyrirlestraröð um reynslu mína hjá dómstólnum og um alþjóðlegan refsirétt almennt og þeirra má vænta í september næstkomandi.

Í millitíðinni hafði ég einnig tekið að mér að aðstoða systur Sævars Rafns Jónassonar í samskiptum sínum við Ríkissaksóknara vegna dauða bróður hennar. Þegar skýrsla Ríkissaksóknara um Hraunbæjarmálið var birt varð okkur ljóst að frekari upplýsinga var þörf og við afréðum að sækjast eftir að fá aðgang að rannsóknargögnum málsins.

Afgreiðsla beiðnarinnar tók mjög langan tíma og loks varð niðurstaðan sú að við fengjum aðeins takmarkaðan aðgang að gögnum málsins. Ég lagðist þó yfir þau gögn sem við fengum aðgang að og komst að þeirri niðurstöðu að ýmislegt sem þar var að finna stemmdi ekki við frásögn Ríkissaksónara í skýrslu sinni. Á sama tíma hafði Helgi Seljan haft samband við mig vegna skrifa minna um málið og saman unnum við að efni fyrir Kastljósþætti um andlát Sævars Rafns.  Þættirnir eru átakanleg frásögn af því hvernig kerfið brást Sævari á öllum stigum og hvet ég þá sem ekki hafa séð þá að horfa á þá.

Hraunbæjarmálið vakti áhuga minn á málefnum alvarlega geðveikra einstaklinga á Íslandi. Kerfið í heild hafði brugðist Sævari Rafni og ekkert virtist eiga að gera til þess að eitthvað þessu líkt gerðist ekki aftur. Ég stefndi á að leggja fram kæru fyrir hönd fjölskyldu Sævars til Mannréttindadómstóls Evrópu og hafði unnið mikla vinnu við það þegar í ljós kom að ekki var búið að nota öll réttarúrræði hér á Íslandi og málið dagaði uppi vegna fjárskorts og tímaleysis enda hafði öll mín vinna fyrir systur Sævars verið í sjálfboðavinnu.

Ég hef þó alls ekki gleymt Hraunbæjarmálinu og er að íhuga hvernig best er að taka á því hvort sem verður, innnan þings eða utan. Veljist ég til þingsetu fyrir þjóðina er öruggt að ég muni leggja fram þingsályktunartillögu um að sett verði á fót sjálfstæð rannsóknarnefnd sem fer yfir mál Sævars frá upphafi til enda. Verði raunin sú að ég fari ekki á Alþingi Íslendinga mun ég starfa að málefnum sem tengjast réttindum fólks með geðfötlun, líkt og ég geri nú með Landssamtökunum Geðhjálp.

Fjölbreytt og frábær verkefni

Ég var kjörin formaður Menningar og friðarsamtakanna MFÍK snemma árs 2014 og hef komið að skipulagningu fjölda viðburða með þeim gamalgrónu og frábæru samtökum. Stoltust er ég af málþingi um málefni flóttamanna sem við héldum í Iðnó veturinn 2014 undir yfirskriftinni Farðu burt! þar sem fjöldi mælenda nálgaðist þetta mikilvæga málefni út frá mörgum sjónarhornum. Talsvert er til af alls konar efni um viðburðinn sem meðal annars má finna hér, hér og hér.

Farðu burt banner
Mynd gerð í tilefni af málþinginu Farðu burt! Teiknari: Ari Hlynur Guðmundsson

Ég hef komið að fjölbreyttum verkefnum síðastliðin tvö ár. Ég hef ég unnið talsvert með Snarrótinni, samtökum um borgaraleg réttindi. Ég er að leggja lokahönd á bók um stríðið gegn fíkniefnum, sögu þess og afleiðingar ásamt yfirliti yfir nýstárlegar og mannúðlegar útfærslur á vímuefnastefnu landa víðsvegar um heiminn. Ég hef tekið að mér að aðstoða einstaka flóttamenn í samskiptum sínum við útlendingastofnun. Ég tók að mér að vera ráðgjafi fyrirtækis sem ákvað að kæra dómsúrskurð til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Síðustu mánuði hef ég starfað að verkefnum fyrir Landssamtökin Geðhjálp er snúa að málefnum fólks með geðraskanir og geðfötlun. Ég gerði úttekt á lögmæti nýsamþykktra lögræðislaga með tilliti til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem og annarra mannréttindasáttmála sem nálgast má hér.  Sem stendur vinn ég að gerð vefsíðu sem ætlað er að upplýsa meðlimi Geðhjálpar sem og aðra áhugasama um mikilvæg mannréttindi fólks með geðraskanir og geðfötlun.

Píratar

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar núverandi ríkisstjórn var kjörin árið 2013. Mér fannst við ekkert hafa lært af hruninu og ég var í raun mjög reið yfir því að þeim skyldi treyst til forystu svo fljótt eftir sögulegt klúður þeirra og vanrækslu. Íslensk stjórnmál þóttu mér vond og leiðinleg og ég gat alls ekki hugsað mér að taka þátt í þeim. Ætlun mín var einfaldlega að koma heim í nokkur ár, ná mér í góða starfsreynslu og halda aftur á vit ævintýranna í útlöndum. Mér fannst útséð með að ekkert myndi breytast á Íslandi og að hér biði mín engin framtíð.

Ég hafði þó fylgst með Pírötum úr fjarlægð á meðan ég bjó úti og kynnst þeim lítillega eftir að ég flutti heim. Það var þó ekki fyrr en í janúar 2015 sem ég kynntist þeim betur þegar Smári McCarthy hafði samband við mig og vildi hitta mig í kaffibolla. Smári hafði lesið nokkrar greinar eftir mig sem honum þóttu góðar og hann vildi nýta tækifærið á meðan hann var á landinu til þess að hitta mig og spjalla um mannréttindi og aðra áhugaverða hluti.

Ekkert varð af kaffibollanum áætlaða en þess í stað hittumst við og fengum okkur bjór saman. Nokkrum dögum seinna bauð Smári mér með í matarboð með nokkrum góðum Pírötum og eftir það var ekki aftur snúið. Ég hef verið forfallinn Pírati allar götur síðan. Smára hitti ég því miður allt of sjaldan þar sem hann er enn búsettur í Sarajevo en ég hlakka mikið til að fá hann heim í ágúst.

Kosin í framkvæmdaráð
Frá aðalfundi Pírata 2015, hér ber að líta mig í fríðu föruneyti meðlima framkvæmdaráðs Pírata.

Það var stór ákvörðun að velja að fara í prófkjör fyrir Pírata og um tíma var ég alls ekki viss um hvort ég myndi láta verða af því þrátt fyrir mikla hvatningu víðsvegar að úr flokknum. Kosningarbarátta er oft á tíðum mikill leðjuslagur og ég þurfti góðan tíma til þess að íhuga hvort ég væri yfirhöfuð með nógu þykkan skráp til að þola skítkastið sem mögulega vænta má í slíkri baráttu. Eins vissi ég ekki hvort mér hugnaðist þingseta yfir höfuð, þar sem ég veit að líf þingmannsins er ekki dans á rósum. Ég ákvað að slá til þar sem mér þykja Píratar vera síðasta von okkar á Íslandi og eina von mín um að geta staðið fyrir raunverulegum og góðum breytingum í Íslensku þjóðfélagi.

Ég hef starfað alls konar með Pírötum, ég sat sem alþjóðafulltrúi framkvæmdaráðs í eitt ár og sit nú sem nefndarmaður í úrskurðanefnd flokksins. Þá hef ég verið umsjónarkona sjónvarpsþáttarins Strandhöggs ásamt Söru Óskarsson, sem er sjónvarpsþáttur á vegum íslenskra Pírata. Eins hef ég komið að alls konar stefnumótun og fundarhaldi á vegum flokksins og er fastur gestur í Tortuga, höfuðstöðvum Pírata. Mér þykir ótrúlega vænt um fólkið sem er með mér í flokknum, enda eintómir snillingar þar á ferð. Sama hvernig fer í þessu prófkjöri veit ég að ég verð alltaf viðloðandi Píratana mína. Ég er komin heim.

Olga og Sunna með fána
Við Olga Margrét Cilia í Tortuga, sáttar eftir vel heppnaðan aðalfund 2016.