Loks koma kosningar

Nú hefur ríkisstjórnin loksins gefið út mögulega dagsetningu fyrir næstu Alþingiskosningar. Loksins virðist glitta í staðfestingu þess að ríkisstjórnin ætli sér að standa við loforðið sem Bjarni Ben og Sigurður Ingi gáfu þjóðinni þann 6. apríl síðastliðinn. Í rúma fjóra mánuði hefur ríkisstjórnin ekki fengist til þess að gefa upp hvenær boðað skuli til kosninga. Ef Bjarni og félagar standa við loforðið um að boðað verði til kosninga þann 29. október má segja að þeir hafi tekið sér tæpt hálft ár til þess að verða við skýlausri kröfu almennings um nýjar kosningar og nýja ríkisstjórn.

En rétt eins og síðast þegar loforðið var gefið er nýbirt loforð bundið því skilyrði að ríkisstjórnin fái frið frá stjórnarandstöðunni til þess að fá í gegn óljósan fjölda mála fyrir kosningar. Ríkisstjórnin neitar þannig enn í dag að horfast í augu við það að krafan um nýjar kosningar hafi komið frá þjóðinni. Eflaust er auðveldara fyrir Bjarna og Sigurð Inga að klína kröfunni um kosningar á stjórnarandstöðuna í stað þess að minnast þess að þjóðin vildi og vill enn þann dag í dag reka þá úr sínum störfum. En ég minnist þess. Þjóðin minnist þess.

Ég tók þátt í stærstu mótmælum Íslandssögunnar þann 4. apríl ásamt 22 þúsund öðrum manneskjum sem misbauð gjörsamlega aflandssýkin og spillingin sem opinberaðist í Kastljósþætti daginn áður. Við Sara Óskarsson og Gissur Gunnarsson tókum viðtöl við alls konar fólk þennan dag til þess að fanga anda mótmælanna og birtum þau í Strandhöggi, sjónvarpsþætti Pírata á ÍNN, næsta dag. Mér þykir afskaplega vænt um þessi viðtöl og þáttinn sem varð úr þeim því þar sást svo vel hversu misboðið okkur var en einnig að hægt er að mótmæla og vera reiður en eiga samt von í hjarta og húmor yfir fáránleikanum sem blasti við landsmönnum öllum í apríl.

Í tilefni þess að í dag erum við skrefi nær að fá kröfum okkar framfylgt gegn spilltustu ríkisstjórn í mínu minni birti ég aftur viðtöl sem við Sara tókum við Hemúlinn og Pál Óskar Hjálmtýrsson þennan örlagaríka dag. Báðir voru þeir stórskemmtilegir viðmælendur sem höfðu margt viturt og ákallandi að segja um stöðuna eins og hún horfði við okkur þá, mótmæladaginn mikla þann 4. apríl 2016. Ekkert hefur breyst frá þessum degi, krafan um nýjar kosningar stendur enn og ólíðandi er með öllu að ríkisstjórnin ætli sér enn á ný að hengja dagsetningu nýrra kosninga á það hvort stjórnarandstaðan hlýði þeim og þeirra kröfum. Það vorum við, almenningurinn í landinu sem kröfðumst nýrra kosninga. Leyfum þeim ekki að gleyma því, fólkinu í stjórnarráðinu.

 


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s